Við Davíð höfum síðan við kynntumst bæði verið mikið fyrir kókdrykkju. Stöku sinnum Pepsi Max. Mestmeginis Diet Coke eða Coke Light. Jafnvel Zero þegar þannig liggur á okkur. Við höfum alltaf átt kók - eða verið á leiðinni að fara að kaupa kók. Það hefur verið hamstrað á tilboðstímum og ákveðið öryggi fólgið í því að vita af einum svalandi sopa af stakri kaloríu í ísskápnum. Fíklar? Nei, ég held ekki, en klárlega of mikið af því góða.
Í ágúst hættum við að kaupa kók. Við bara hættum! Við drekkum ennþá kók þar sem við erum gestkomandi ef okkur langar í og það er í boði. Ef við förum "út að borða" (lesist á MacDonalds eða álíka) þá kaupum við líka kók ef okkur langar í það. Við kaupum það ekki á heimilið. Það sem meira er - við höfum varla saknað þess. Tvisvar! Tvisvar hef ég hugsað "nú væri gott að eiga kók". Mig hefur þó ekki langað nógu mikið í það til að fara út í búð og kaupa það en í annað skiptið var Davíð svo yndislegur að koma með eina dós handa mér úr búðinni síðar um daginn. Fanatíksk? Alls ekki eins og sést. En okkur hefur klárlega báðum liðið betur í kókleysi heimilisins.
Í gær fengum við gesti frá Jótlandi. Þau komu við í þýskum gnægtaverslunum áður en þau mættu á svæðið. Aðallega til að afla drykkjarfanga. Þau komu með tvo kassa af Coke Zero dósum. Ég er með eina kalda við hliðina á mér núna. Hún er búin að vera að kalla á mig síðan í hádeginu. Because I can!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli