fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Í fæðingarorlofi að borða laxasalat

Það er skrítin stemmning að vera í fæðingarorlofi. Maður er hvort tveggja í senn, í fríi og í alls engu fríi. Það er ekki langt síðan ég var í fæðingarorlofi með Eyrúnu Birnu. Ekki nema rúm tvö ár síðan því lauk. Það er samt nógu langur tími til þess að ég væri alveg búin að gleyma því að maður kemur engu í verk í fæðingarorlofi, janfvel þó að allir standi í þeirri trú að maður hafi allan tímann í heiminum. Við Agnes Elín erum núna búnar að vera í fæðingarorlofi saman í rúma tvo mánuði. Enn hef ég afar fátt því sem ég ætlaði að vera svo dugleg að gera í orlofinu. Ég er ekki búin að lesa leiðbeiningarnar með myndavélinni minni spjaldanna á milli og hef aldrei farið með hana út að taka myndir. Ég er ekki byrjuð í fjarnámi í sænsku. Ég hef ekkert skrappað enn og hef bara ósköp lítið sinnt myndum og myndaalbúmum fjölskyldunnar. Ég hef bara farið í örfá skipti í mömmuleikfimi, bara tvisvar föndrað með Eyrúnu Birnu, einu sinni bakað og aldrei eldað eftir öðrum uppskrifum en þeim sem fylgja Linas Matkasse. Ég hef einu sinni horft á sjónvarpsþátt að degi til (í gær) og þau eru teljandi á fingrum annarrar handar skiptin sem ég hef lagt mig. Ég ætla ekki einu sinni að byrja á öllu því sem ég er ekki búin að gera á fræðilega sviðinu, greinunum sem ég hef ekki lesið, dómunum sem ég er ekki búin að vera að fylgjast með, bloggfærslunum sem ég hef ekki skrifað o.s.fv. Hvað er ég þá búin að vera að gera?? Ekki hugmynd!

Ég hef því ákveðið að blogga í orlofinu. Það er ekki víst að bloggfærslurnar verði allar mjög spennandi enda ætlunin að halda nokkurs konar dagbók hér á netinu - ekki síst til að reyna að átta mig á því hvað dagarnir mínir fara í. Hvernig er lífið í fæðingarorlofi í Lundi? Ég gæti hugsað mér að setja mér reglulega einhver markmið og fylgjast svo með því hvernig mér gengur að klára þau. Hér langar mig líka að deila með ykkur uppskriftum sem ég prófa (vonandi), skrappsíðum sem ég klára (vonandi) og kannski fer ég einhvern tímann að geta sett inn fallegar myndir sem mér tekst að skjóta á gersemina mína. Það getur vel verið að ég læði inn hér einhverjum þjóðfélagspælingum en líklegast verður það sjaldnar. Það er bara svo sjaldan sem mér tekst að hugsa heila hugsun frá byrjun til enda þessa dagana. Efnið er opið en eitt er víst - bloggið er komið aftur.

Í dag er einn af þessum dögum sem ég var búin að sjá fyrir mér að ég myndi eiga mikið af í orlofinu en hefur ekki tekist að eiga nema fáa enn sem komið er. Mér tókst nefnilega að strunsa með Eyrúnu Birnu í leikskólann klukkan 09:00 og halda svo áfram niður í Gerdahallen (ræktin mín) og vera mætt í leikfimi kl. 09:45. Mikið var það nú hressandi. Fullt af glöðum eða gargandi krílum og mömmum í jafnslæmu formi og ég að gera ótrúlega leiðinlegar kerlingaæfingar við sænsk júróvisíonlög. Hljómar ekki vel? Þetta var sko fínt. Ég segi ekki að ég myndi velja þetta fram yfir góðan Body Pump tíma en það er bara ótrúlegt hvað maður getur sætt sig við þegar ekki er annað í boði. Agnesi Elínu fannst líka bara mjög fyndið að fylgjast með mömmu sinni á fjórum fótum með rassinn út í loftið að pissa eins og hundur.

Eftir að hafa strunsað aftur heim og þannig náð bara alveg hátt í tveggja tíma samfelldri hreyfingu þennan morguninn ákvað ég að hádegismaturinn fengi ekki að vera neitt annað en hollur. Ég notaði hugmynd frá Níní sem innblástur og bjó mér til dásamlega gott laxasalat og skellti ofan á hrökkbrauð.

Laxasalat
1 lítil dós kotasæla
ca 1/4 avocado
2 egg
reyktur lax eftir smekk (ég notaði kannski svona dl)

Avocadoið, eggin og laxinn skar ég svo smátt og blandaði út í kotasæluna og kryddaði svo með pipar og heilsusalti (herbamare). Þessu skellti ég svo ofan á gróft hrökkbrauð og það besta er að það er hellings afgangur fyrir hádegismatinn á morgun.

Ef ég hefði mátt borða rauðlauk hefði hann auðvitað verið fullkominn smátt saxaður út í (kannski svona 1/4 laukur þá). Þar sem Agnes Elín er magakveisu kríli á brjósti verður það bara að bíða betri tíma.

Engin ummæli: