fimmtudagur, 22. janúar 2009

"Ég er nú bara starfsmaður á plani"

Hversu skemmtileg eru nú áhrif Nætur- og Dagvaktarinnar á Íslenskt mál? Þetta finnst mér snilld.

En, síðan hvenær varð Össur starfsmaður á plani? Er hann ekki iðnaðarráðherra?

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Fjársjóðurinn minn

Ég á að vera að læra. Sit hérna við skrifborðið mitt og hlusta á feðginin fíflast. Fyrst yfir baðrútínunni og nú heyrist mér þau vera í símaleik, eða myndavélaleik. Litla daman kann aðeins örfá orð en þau spjalla og spjalla eins og enginn væri morgundagurinn og inn á milli heyrast í henni hlátrasköllin sem bara krakkar geta gefið frá sér. Pabbi er greinilega mjög fyndinn og hress. Dásamlegt.

Varð bara að deila þessu með ykkur - og nú aftur að bókunum.

Að skipta um skoðun

Fyrst þegar Fólkið fór að biðja um afsögn ríkisstjórnarinnar og kosningar á Íslandi var ég alfarið á móti því. Ekki af því mér fyndist svo frábært að hún sæti heldur var uppnámið þvílíkt að kosningar hefðu verið glapræði.

Núna... gerir ríkisstjórnin lítið af viti meir. Aðgerðir hennar núna eru ekki krísuviðbrögð heldur... tja... það fer alla vega að koma tími til að kjósa.

Það verður spennandi að fylgjast með landsfundi - væri gaman að gæta mætt. Endemis Svíþjóð (eða þið vitið - ekki alveg en samt stundum).

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Kalt í Lundi

Við erum að tala um 17°C inni hjá mér. Ég næ ekki að kynda húsið mikið meira (nema fara á hausinn). Mig vantar arin. Það er nokkuð ljóst. Þetta er fáránlegt. Ég sit hér í lopapeysu og -sokkum með flísteppi utan um mig og er að frjósa. Best að hella upp á te.

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Listin að klúðra viðtali

Ímyndaðu þér að þú sért stjórnandi fréttaskýringarþáttar á Íslandi. Ástandið er... eins og það er í dag, og þú ert með Bjarna Ármannsson í viðtali hjá þér að horfast, a.m.k. að hluta til, í augu við sinn hlut í falli íslenska fjármálakerfisins. Þú getur spurt hann um allt það sem brennur á allri þjóðinni. Hvað myndirðu leggja aðaláherslu á? Að fá hann til að segjast vera glataður fáviti? Hver yrði t.d. síðasta spurning þín? "Átt þú ekki bara að fá falleinkunn sem viðskiptamaður?"

Sigmar... þú hefðir getið tekið þetta - en þú gerðir það ekki.

Bjarni hins vegar... þú tókst þetta frábærlega. Það verður ekki frá þér tekið.

laugardagur, 3. janúar 2009

Játning

Ég átti frábær jól. Þau byrjuðu með yndislegum aðfangadegi og aðfangadagskvöldi með Eyrúnu Birnu og Davíð. Jólamaturinn heppnaðist frábærlega, mér til mikils léttis, og kvöldstundin með fjölskyldunni var hin ljúfasta. Ég mun aldrei aftur kvíða því að halda fámennt aðfangadagskvöld. A.m.k. ekki þegar það er svona góðmennt.

Á jóladag ákváðum við á hádegi að bjóða í smá jólakaffi. Allt í einu voru mættir til okkar 16 manns í kaffi, bollur, smákökur og jólaglögg og sökum fjölmennis var bara tilvalið að taka fram gítarinn og dansa í kringum jólatréð. Um kvöldið var okkur boðið í hangikjöt og félagsvist á Bivackgränden. Það var ekki leiðinlegt.

Annar í jólum kíktum við hjónin á útsölur - í sitthvoru lagi. Svo fórum við í jólaboð hjá Elvu Björk og Guðmundi (í sveitinni) sem buðu 17 manna saumó ásamt fjölskyldum í kaffi og Bingó. Dagurinn endaði svo í julefrokost að dönskum sið hjá Tomma og Möggu í Dragör (DK) með stórfjölskyldunni allri. Mamma og pabbi voru komin, ásamt Friðrik og Elísabetu og Katrínu Þóru. Það var svo gaman að sjá þau öll.

Þann 27. des fórum við nokkur á Hnotubrjótin, tókum svo pizzu og spil hjá Tomma í Dragör og svoleiðis liðu jólin. Dómkirkjuskoðun, hangikjöt og litlu jól í Lundi þann 28. des. Útsöluskoðun, rólóferð og sjóbað ásamt jólaglöggi og gamlárskvöldsskipulagningu þann 29. des. Jólatívolí með hersingunni allri þann 30. des ásamt dýrindis kvöldverði á Wagamama sem stendur sko alltaf fyrir sínu. Síðasta dag þessa endemis árs safnaðist svo 12 manna stórfjölskyldan saman í Dragör, undirbjó veislu kvöldsins og fagnaði svo með skaupi, flugeldum, Singstar og alvöru áramótastemmningu með ýmsu tilheyrandi eins og leigubílabið fram undir morgun o.fl. Nýarsdagur blandaðist þreytu og þynnku en við í Dragör hlóðum okkur þó samt inn í okkar fjallabíl með nesti og spil, leikföng og teiknimyndir og áttum nokkrar góðar klukkustundir með Íslandsgenginu í íbúðinni þeirra í Frederiksberg áður en leiðir skildu.

Þessir dagar voru alveg frábær. Við vorum mörg, sem hafði kannski þá einu slæmu hlið að ég fékk ekki að drekka í mig alla kosti hvers og eins þeirra sem ég sakna svo ógurlega mikið, en klárlega þá yfirgnæfandi góðu hlið sem sú tilfinning er að hafa alla sem standa manni næst í kringum sig á sama tíma. Þegar ég leit yfir stofuna mína á litlu jólunum og sá alla sitja þar prúðbúna við hangikjötsborðið... þá var gaman.

Játningin er bara sú að kveðjustundin var erfiðari en ég hélt. Árskiptin voru líka erfiðari en ég hélt. Ég táraðist yfir áramótaskaupinu – það er glæný lífsreynsla. Ég átti erfitt með að halda aftur af tárunum yfir innlenda fréttaannálnum á nýársdag. Ég táraðist margoft við tilhugsunina í gær um að fólkið mitt væri á heimleið og óvíst um hvenær þau kæmu aftur – eða hvenær ég kæmist heim. Mig langar heim og játa það hér með. Ég hugsa daglega til Íslands, vina minna og fjölskyldu þar en einnig ástandsins sem þar ríkir. Mér finnst erfitt að vera hér þegar ég vil svo miklu frekar vera þar þrátt fyrir að hér hafi ég alls ekki yfir neinu að kvarta – tja nema kannski peningaleysi. Ég er með heimþrá.