Jæja, þá er ég búin að kaupa hverja einustu jólagjöf sem keypt verður á þessu heimili. Svona getur maður verið snemma í því þegar maður er í fæðingarorlofi. Ég á reyndar eftir að föndra þrjár - en það verður bara gert á næstu dögum. Það er nú samt ekki nóg með að ég sé búin að kaupa allar jólagjafirnar. Ég er búin að pakka þeim flestum inn líka. Mér telst til að ég eigi eftir að pakka inn þremur gjöfum (auk þeirra þriggja sem ég á eftir að föndra). Jólakortin komu líka í hús í gær. Þau verða skrifuð í kvöld og send til Íslands á mánudaginn. Nú er því lítið annað að gera en bara að njóta desembermánaðar. Mig grunar nú líka að það verði ágætt að hafa minna en meira að gera síðustu dagana fyrir jól. Held það kosti alveg smá skipulag og skynsemi að pakka fyrir þriggja vikna Íslandsferð sem inniheldur jól, áramót, skírn og fjöldan allan af boðum, en líka sumarbústaðarferð, sundferðir, rólóferðir o.s.fv.
Lífið í fæðingarorlofi hefur lítið breyst. Þessi vika hefur verið heldur erfiðari en margar aðrar. Davíð hefur nánast ekkert sést hér heima og næturnar hafa ekki boðið upp á mikinn svefn. Fyrir vikið hefur hreyfing verið í lágmarki og mataræðið af orkuríkara taginu (lesist:súkkulaði). Húsið er nú heldur ekki í sínum fínasta búning og bara almennt hefur mér lítið orðið úr verki. Ég þoli ekki þegar mér verður lítið úr verki. Það klæðir mig ekki. Ég þoli líka mjög illa að hreyfa mig ekki og enn verr að borða ekki nægilega hollan mat. Agnes Elín er líka farin að fá pela á hverju kvöldi. Ástandið á andlegri líðan er eftir þessu. Svona eru fæðingarorlof bara. Fjöll og dalir. Það þýðir ekki að dvelja í dal. Þessa helgina ætla ég að klífa fjall.
Það hljómar kannski undarlega í ljósi þess sem á undan hefur verið sagt að þetta fjallaklifur skuli byrja með súkkulaðiáti. En þetta er special occation. Ég á nefnilega, þökk sé pabba (takk pabbi), jólablað Morgunblaðsins 2010. Ég er búin að vera að geyma það í nokkra daga. Nú er litlan sofandi og stóran að perla. Ég er með green chai í bolla og nokkra Maraboumola á kantinum og ætla að taka mér stund með jólablaðinu. Eftir það er það samt bara búst, og Zumba og tiltekt og þvottabrot og jólakortaskrif og og og... almennt fjallaklifur. Ég verð komin í þvílíkt stuð á mánudaginn. Vitiði bara til!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli