mánudagur, 23. mars 2009

Umræðan

Umræðan um pólitíkina í dag er farin að fara mikið í taugarnar á mér. Ekki umræða pólitíkusanna sjálfra endilega heldur hinna, sem standa til hliðar og fylgjast með og naga og væla og kvarta...

Af hverju er engin endurnýjun? Af því ekki svo margir nýir bjóða sig fram? Af hverju eru þeir nýju sem bjóða sig fram ekki í fremstu víglínu? Af því þeir voru ekki kosnir. Hver kaus þá ekki? Þeir sem biðja hvað mest um endurnýjun líklegast.

Af hverju er Steingrímur J búinn að vera formaður VG í 10 ár? Hann er í flokki, frjálsum félagasamtökum, og býður sig fram á hverjum landsfundi án mótframboðs. Yrði hann kosinn ef hann fengi mótframboð? Það er félagsmanna í félagi með honum að ákveða það. Af hverju er hann án mótframboðs? Af því enginn býður sig fram á móti honum!

Af hverju sitja þingmenn fast í sætum sínum? Þeir hafa áhuga, hver svo sem hvatinn er, á að sinna þessu starfi. Þeir eru kosnir. Ekki þeir sem ekki bjóða sig fram. Þeir munu aldrei vera kosnir - nema þeir bjóði sig fram.

Ef eftirspurnin eftir endurnýjun og nýjum valmöguleikum er raunverulega svona mikil hlýtur framboðið að koma. Þegar kosið verður um framboðið er ekki hægt að væla yfir útkomunni. Fólk uppsker eins og það sáir. Ef ný framboð eru ekki kosin - er eftirspurnin bara ekki meiri. Eða ábyrgðartilfinning fólks með eftirspurnina ekki meiri. Hver svo sem ástæðan er - svona féllu bara atkvæðin! Meirihlutinn ræður!

Það er ekki hægt að þvinga stjórnmálaflokka til að breyta stefnu sinni til að þóknast þeim sem ekki leggja fram sína eigin stefnu.

Svona er bara lýðræðið. Við viljum lýðræði. Við viljum þetta. Það á enginn heimtingu á því að einhver annar bjóði fram krafta sína í þeirra þágu. Það á enginn heimtingu á endurnýjun, nýjum hugmyndum og nýjum starfskröftum. Þeir sem eru kosnir eiga rétt á sínum sætum - í hvaða embætti sem er. Eftir þeim var mest spurn! - Ef þú ert ekki sáttur - gerðu þá eitthvað! Ekki ráðast á þá sem sitja réttkjörnir í sínum sætum. Hvort sem það eru Jóhönnur, Steingrímir, Einarar eða Bjarnar. Atkvæðin féllu til þeirra.

1 ummæli:

Unknown sagði...

So true!!!

Kv,
Magga