Í dag lauk merkileg kona lífi sínu. Lífi sem einkenndist af fórnfýsi og dugnaði, trúfesti, staðfesti, djörfung og gleði. Amma Sveina er dáin. Sveina var ekki amma mín. Hún var hins vegar amma mjög margra sem ég umgekkst mikið um tíma og þess vegna er hún og verður alltaf fyrir mér - amma Sveina.
Amma Sveina var annar helmingur magnaðs tvíeykis sem ég kynntist þegar ég fyrst fór að starfa í sumarbúðunum í Ölveri árið 1994. Hinn helmingurinn var Bettý. Sveina var forstöðukona. Bettý var ráðskona. Sér til aðstoðar við að stýra heilum sumarbúðum höfðu þær okkur. Stelputrippi sem höfðu lítið að vopni annað en viljann og höfðu takmarkaðan skilning á þeirri miklu reynslu og visku sem bjó í Bettý og Sveinu. Sumarið var stormasamt og lærdómsríkt. Síðan eru liðin rúm 15 ár. Á þessum árum vitkaðist ég og með vitinu kom skilningurinn.
Bettý kvöddum við fyrir all nokkrum árum eftir baráttu við banvænan sjúkdóm. Í dag kvaddi Sveina. Sumarið 1994 var byrjunin á góðu, á yndislegu samstarfi við Sveinu hvort heldur sem var sem starfsmaður hennar, meðstjórnarmaður eða sem stjórnarmaður sem naut þess að starfa undir fyrirbænum og velvild hennar.
Sveina helgaði líf sitt Ölveri, KFUK og SÍK. Hún helgaði einnig líf sitt börnum sínum og barnabörnum. En fyrst og fremst helgaði hún líf sitt Guði. Hún var trúföst og bænheit og ósérhlífin með öllu. Hún skoraðist ekki undan tækifæri til að vinna verk í ríki Guðs, hversu stórt eða smátt sem það var. Hún var fyrirmynd. Ég mun sakna þess að upplifa ekki hlýtt faðmlag hennar og viðmót á mannamótum þar sem þess væri annars að vænta. En hún er nú á besta stað og það er hverjum manni hvatning að reyna að fylla í þau spor sem hún skilur eftir hér. Hennar hógværu störf munu bera ávöxt langt umfram það sem nokkurn tímann verður mælt.
Minningin um Sveinu er góð. Um leið og fráfall slíkrar konu er syrgt ber að fagna og gleðjast yfir löngu og hamingjuríku lífi hennar sem bar svo ríkulega ávöxt, sem börn hennar og aðrir afkomendur bera vitni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli