mánudagur, 21. desember 2009

Notalegt

Ég þarf klárlega að fara að finna auðvelda leið til að setja inn myndskeið. Sumri stemmningu er bara engan veginn hægt að lýsa með orðum. Til dæmis þeirri sem ríkir í eldhúsinu mínu núna. Hér á neðri hæðinni er ástandið eins og í laginu góða "... á réttum stað ei neitt, ryksugan á gólfinu og..." Það skiptir engu. Tvær tveggja ára "bästis vinir" og ég fórum út áðan að leika í snjónum. Þær létu draga sig í snjónum, lærðu að búa til engla og óðu snjó upp í mitti til að komast út á róló. Meira hvað maður rennir hratt í snjóbuxum á snjóblautri rennibraut. Nú erum við hér í eldhúsinu með heitt kakó og brauð með mysing og gormarnir dilla sér við íslensk jólalög. Þær eru svo glaðar, með kakóið - og með hvora aðra, bästis vinirnir.

Svo kom líka slatti af jólakortum í póstkassann í dag og það bíður eftir okkur pakki á pósthúsinu. Ætli það séu ekki bara að koma jól - með jólaskapi og allt saman!

Er einhver sem vill skrifa fyrir mig tvær ritgerðir annars? Í boði er annars vegar Sérstaða lyfjaiðnaðarins með tilliti til beitingu evrópskra samkeppnisreglna og hins vegar eitthvað ótrúlega spennandi efni að eigin vali um ríkisstyrki.

Engin ummæli: