Ég sendi lítinn blómálf i leikskólann í dag. Á næsta ári verður hún norn. Hún er bara allt of grúví til að vera blómálfur.
Ég er lítið farin að hugsa um jól. Kannski af því ég er að kafna í ritgerðarskrifum, fer lítið út úr húsi og er alls ekki í stuði til að jólavesenast eitthvað. Bæklingar um jólaskraut og gjafir eru farnir að fylla póstkassann á hverjum degi, og ég er viss um að jólaskrautið er komið í búðirnar einhvers staðar. Ég er bara ekki búin að fara að kíkja á það.
Ég fékk samt svolítinn hnút í magann rétt í þessu, þegar ég sá minnst á jólaheimferðir á stöðuuppfærslum á fésbókinni og stefnumót á Þorláksmessustund í Friðrikskapellu. - Það var mjög notalegt að eyða jólunum hér á heimilinu okkar í Svíþjóð í fyrra. Núna verður ábyggilega ekki síður notalegt þar sem við fáum að hafa stóra strákinn okkar hjá okkur. - Í fyrra komu samt mamma og pabbi og öll systkini mín og eyddu með okkur viku frá öðrum í jólum. Það gæti hafa gert allt saman miklu auðveldara...
... Ég er alveg til að vera heima með litlu fjölskyldunni um jólin. Ég vildi samt að ég gæti farið á Þorláksmessustund í Friðrikskapellu og spilað við systkini mín í Hæðarselinu á jóladag. Það væri aðeins betra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli