þriðjudagur, 21. apríl 2009

Sofa - eða ekki sofa

Dóttir mín er farin að skríða æ oftar upp í rúm okkar foreldra sinna á nóttunni. Við höfum verið að ræða það hvernig best sé að stoppa þessa þróun. Eða hvort? Það fylgja þessu klárlega bæði kostir og gallar. Gallar: Henni finnst ótrúlega gott að kúra ofan á hausnum á mér, stela koddanum mínum og hrjóta hátt í eyrun mín. Kostir: Hún sefur alltaf lengur þegar hún kúrir upp í. Í morgun sváfum við til 8:40!

mánudagur, 20. apríl 2009

Cheerios...

... ég held mér finnist bann við sölu General Mills morgunkornins bara nógu góð ástæða til að ganga ekki í Evrópusambandið. (Eða er það ekki einhver evrópu-næringarreglugerð sem veldur því að það fæst hvergi hér?)

Ég elska "íslenskt" Cheerios - kvölds, morgna og um miðjan dag!

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Búhúúú...

Eftir annir, gestagang, hátíðarhöld, hreyfingarleysi, leikskólafrí og ofát síðustu daga líður mér eins og ég sé bókstaflega hlaupin í spik enn eitt skiptið og líf mitt hafi styst um heil 20 ár vegna almenns óheilbrigðis. Hér með lýkur þessari vitleysu. Morgundagurinn verður tekinn í nefið. Ekki nema tveir mánuðir þar til áætlað var að hafa náð markmiðum vetrarins. Enginn tími fyrir bakslag!! BRING IT ON!

sunnudagur, 12. apríl 2009

Páskadagur

Páskakanínan faldi 8 græn og fjólublá hænuegg í garðinum. Krakkarnir fundu þau öll. Eyrún Birna þrjú og Jökull Freyr restina. Páskamorgunverðurinn rann ljúflega niður við kertaljós og klassíska tónlist. Íslenska súkkulaðið var og er gott. Því komst Eyrún Birna að í fyrsta skipti í dag. Húsið er hreint. Gólfið er skúrað. Lambalærið bíður marínerað í ísskápnum. Eyrún Birna lúllar. Jökull hlustar á Enid Blyton og rótar í Legoinu sínu. Kaffibolli á kantinum og vöfflur hjá góðum vinum framundan... Páskadagur.

Gleðilega páska.

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Stressandi stjórnarskrárbreytingar

Hef ekki oft tekið undir orð Björns Bjarnasonar en geri það nú. Það er niðurlægjandi fyrir þingmenn að sitja á Alþingi og ræða stjórnarskrárbreytingar bara af því að Framsóknarflokkurinn vill það. Það er líka niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina að ræða stjórnlagabreytingar á þessum forsendum bara af því þeir ætla sér að sitja sem fastast. Það er náttúrulega klárlega niðurlægjandi fyrir Höskuld Þórhallsson, þann annars mjög mæta mann, að tefla fram sem rökum með stjórnlagabreytingum að það hafi verið skilyrði Framsóknarflokksins fyrir stuðningi við núsitjandi ríkisstjórn að ráðist yrði í þessar stjórnlagabreytingar.

Ég má ekki til þess hugsa að skapað verði fordæmi fyrir afgreiðslu stjórnlagabreytinga með þessum hætti - en svoleiðis verður það líklega. Fyrir Framsóknarflokkinn og hans 10% fylgi.

Nærmynd af Björgólfi Thor

Og þetta fannst þeim bara alveg frábær hugmynd?