mánudagur, 30. mars 2009

Farið yfir helgina

Ég er að taka púlsinn á stemmningunni á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hefði gjarnan viljað geta þátt. Ég heyrði setningarræðu Geirs í beinni. Hún var náttúrulega ekkert nema alveg frábær. Ég er að hlusta á Þorgerði Katrínu núna. Hennar ræða er líka frábær. Ég er líka búin að hlusta á glefsur úr málefnastarfinu. Það hefur greinilega verið mjög öflugt og mikil þátttaka í því. Allt í allt greinilega flottur fundur sem ber með sér bæði uppgjör við fortíðina og vilja til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Glatað að ræða Davíðs sé það eina sem hlýtur umfjöllun.

Og að lokum langar mig að benda á að það er ekki rétt að Þorgerður Katrín hafi ekki fengið mótframboð í embætti sitt. Að halda öðru fram er ekki bara vitleysa heldur óvirðing við aðra frambjóðendur í embætti hennar.

sunnudagur, 29. mars 2009

Hvað var Davíð Oddsson að gera þarna?

Próflesturinn er búinn og stelpan er uppgefin. Ég sem sagt. Alveg uppgefin. Ég ætla að taka vikuna í að skrúfa mig upp í síðustu önnina - á milli þess sem ég mæti í skólann. Alveg glatað að fá ekki nokkra daga í frí eftir próftímabil. Fúlt skipulag. Sérstaklega fyrir mömmur með helgarprógramm. Eftir níu tíma próf á föstudaginn tók þetta við: matarboð og rauðvín, bekkjarpartý, íþróttaskóli, húsþrif, barnaafmæli, hjólatúr, MacDonalds, ælupest, Nova Lund, barnaafmæli... Góð en annasöm helgi að paki.

Er annars að hugsa á ræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi frá því í gær. Hverjum datt í hug að gefa honum þetta tækifæri? Bendi á þessa færslu Erlu Óskar sem skipar 4. sæti á öðrum lista flokksins í Reykjavík. Ég tek undir með henni. Ekki talaði Davíð fyrir mína hönd heldur - og einskis sem ég hef heyrt í síðan í gær reyndar. Fyrir hvers hönd var hann að tala - og hvað í ósköpunum var hann að gera upp á sviði á landfundi?

mánudagur, 23. mars 2009

Skemmtilegt atvik

Ég skaust í ræktina í hádeginu. Þegar ég kom út var komin rigning. Ég setti undir mig hausinn, vafði að mér kápunni og hraðaði mér út í bíl í þungum þönkum yfir því hvað ég ætti að fá mér í hádegismat. Ég leit upp þegar ég heyrði bílhurð skellast. Eigandi skellsins var maður á mínum aldri. Svona sænskur töffari bara, í gallabuxum og svartri úlpu með loðkraga. Hann var einn. Hann hló upphátt, setti á sig húfu og breiddi út faðminn á móti rigningunni. Síðan baðaði hann vængjunum eins og fugl að hefja sig til flugs og valhoppaði í burtu. Sérstakt en skemmtilegt.

Umræðan

Umræðan um pólitíkina í dag er farin að fara mikið í taugarnar á mér. Ekki umræða pólitíkusanna sjálfra endilega heldur hinna, sem standa til hliðar og fylgjast með og naga og væla og kvarta...

Af hverju er engin endurnýjun? Af því ekki svo margir nýir bjóða sig fram? Af hverju eru þeir nýju sem bjóða sig fram ekki í fremstu víglínu? Af því þeir voru ekki kosnir. Hver kaus þá ekki? Þeir sem biðja hvað mest um endurnýjun líklegast.

Af hverju er Steingrímur J búinn að vera formaður VG í 10 ár? Hann er í flokki, frjálsum félagasamtökum, og býður sig fram á hverjum landsfundi án mótframboðs. Yrði hann kosinn ef hann fengi mótframboð? Það er félagsmanna í félagi með honum að ákveða það. Af hverju er hann án mótframboðs? Af því enginn býður sig fram á móti honum!

Af hverju sitja þingmenn fast í sætum sínum? Þeir hafa áhuga, hver svo sem hvatinn er, á að sinna þessu starfi. Þeir eru kosnir. Ekki þeir sem ekki bjóða sig fram. Þeir munu aldrei vera kosnir - nema þeir bjóði sig fram.

Ef eftirspurnin eftir endurnýjun og nýjum valmöguleikum er raunverulega svona mikil hlýtur framboðið að koma. Þegar kosið verður um framboðið er ekki hægt að væla yfir útkomunni. Fólk uppsker eins og það sáir. Ef ný framboð eru ekki kosin - er eftirspurnin bara ekki meiri. Eða ábyrgðartilfinning fólks með eftirspurnina ekki meiri. Hver svo sem ástæðan er - svona féllu bara atkvæðin! Meirihlutinn ræður!

Það er ekki hægt að þvinga stjórnmálaflokka til að breyta stefnu sinni til að þóknast þeim sem ekki leggja fram sína eigin stefnu.

Svona er bara lýðræðið. Við viljum lýðræði. Við viljum þetta. Það á enginn heimtingu á því að einhver annar bjóði fram krafta sína í þeirra þágu. Það á enginn heimtingu á endurnýjun, nýjum hugmyndum og nýjum starfskröftum. Þeir sem eru kosnir eiga rétt á sínum sætum - í hvaða embætti sem er. Eftir þeim var mest spurn! - Ef þú ert ekki sáttur - gerðu þá eitthvað! Ekki ráðast á þá sem sitja réttkjörnir í sínum sætum. Hvort sem það eru Jóhönnur, Steingrímir, Einarar eða Bjarnar. Atkvæðin féllu til þeirra.

föstudagur, 20. mars 2009

Áfram Katrín Þóra

Litla systir mín sem er orðin mikið stærri en ég er í dag í inntökuprófi í English National Ballet School í London. Mér finnst ég hefði átt að fara með henni. Ef ég hefði búið á Íslandi hefði ég jafnvel bara gert það. A.m.k. árið 2007.

Ég mun hugsa til hennar með alla fingur og tær krossaðar í dag. Hún á það svo skilið að ganga vel. Hún er frábær. Áfram Katrín!!

sunnudagur, 15. mars 2009

Fúl frammistaða

Hugsa óvenjulega mikið þessa dagana og er alveg til í að fara að blogga aftur með hækkandi sól.

Átti frábæra helgi með hressu fólki og góðu gríni - og súrum endi þegar ég sá niðurstöður prófkjöra Sjálfstæðisflokksins. Nokkrir góðir punktar inn á milli en í heildina ótrúlega léleg frammistaða hjá flokksmönnum. Magnað að sjá nánast engar breytingar í mannavali. Hvort eru Sjálfstæðismenn íhaldssamari en er hollt fyrir þá, hræddir við breytingar eða kannski bara hræddir við skoðanir sínar? Þ.e. að hafa sínar eigin. Eða... sátu þeir sem vildu breytingarnar kannski bara heima hjá sér, kusu ekki og héldu að það myndi breyta einhverju?