miðvikudagur, 30. desember 2009

You can negotiate all you want...

Var ég einhvern tímann búin að segja ykkur að ég var fyrir jól í tímum hjá írskum lögfræðingi, Leo Flynn, sem starfar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, nánar tiltekið með ríkisstyrki. Hann spurði mig leyfis áður en hann notaði í kennslu hugtak sem þekkt er orðið innan hans geira "the Icelandic idiocy". Síðan sagði hann "You will never enter the Union. You can negotiate all you want but we all know it will all lead to nothing." Þar hafiði það. Var samt fínn. Mjög fínn.

þriðjudagur, 29. desember 2009

Heimilislegt

Það er eitthvað heimilislegt við mjúkar piprur sem eru búnar að standa á jólaborðinu síðan á aðfangadagskvöld.

miðvikudagur, 23. desember 2009

Skemmtilegt

Níu mínútur búnar og ég er þegar búin að fá tvær jólakveðjur. Frá biskup og forseta. Hresst.

OCD Pæling

Er mjög slæmt að ganga á eftir krílunum sínum í jólastemmningunni og færa til jólaskrautið sem þau hengja á tréð?

mánudagur, 21. desember 2009

Notalegt

Ég þarf klárlega að fara að finna auðvelda leið til að setja inn myndskeið. Sumri stemmningu er bara engan veginn hægt að lýsa með orðum. Til dæmis þeirri sem ríkir í eldhúsinu mínu núna. Hér á neðri hæðinni er ástandið eins og í laginu góða "... á réttum stað ei neitt, ryksugan á gólfinu og..." Það skiptir engu. Tvær tveggja ára "bästis vinir" og ég fórum út áðan að leika í snjónum. Þær létu draga sig í snjónum, lærðu að búa til engla og óðu snjó upp í mitti til að komast út á róló. Meira hvað maður rennir hratt í snjóbuxum á snjóblautri rennibraut. Nú erum við hér í eldhúsinu með heitt kakó og brauð með mysing og gormarnir dilla sér við íslensk jólalög. Þær eru svo glaðar, með kakóið - og með hvora aðra, bästis vinirnir.

Svo kom líka slatti af jólakortum í póstkassann í dag og það bíður eftir okkur pakki á pósthúsinu. Ætli það séu ekki bara að koma jól - með jólaskapi og allt saman!

Er einhver sem vill skrifa fyrir mig tvær ritgerðir annars? Í boði er annars vegar Sérstaða lyfjaiðnaðarins með tilliti til beitingu evrópskra samkeppnisreglna og hins vegar eitthvað ótrúlega spennandi efni að eigin vali um ríkisstyrki.

Jólalög

Ég get svarið það að ég þyrfti alls ekki að kveikja á útvarpinu hér frekar en ég vildi. Hér er bara stanslaus heimatilbúin tónlist allt frá því álfurinn minn vaknar og þar til hann sofnar. Í morgun vaknaði ég við jólasveina hreinn og hátta sem fóru að hátta á undan jólatröllunum í fyrrakvöld. Þá var illt í jólakirkju. Upp á stól stendur mín kanna er líka vinsælt.

Hér eru líka sungnar jóla-drykkjuvísur að sænskum sið "hej tomtegubbar, slå i glasen, och låt oss lustiga vara", sænskar þyrnirósarvísur og svo auðvitað eru vísurnar um heilaga Lúsíu vinsælar. Sérstaklega þessar þrjár línur (då kommer någon där, jag vet nu vem det är, sankta lucia, sankta lucia) sem geta oft gengið á repeat á meðan önnur verkefni eru leyst.

Mér finnst þetta stuð. Hlakka til að skreyta jólatréð með grísunum mínum á Þorlák og heyra hvað þeim dettur í hug að syngja saman. Verð að muna að kaupa appelsín í jólaölið.

sunnudagur, 20. desember 2009

Jólakort

Ásta Sóllilja
Skyttelinjen 289
22649 Lund
Sverige...

...er spennt að fá öll jólakortin sín í hús!!! :-)

laugardagur, 19. desember 2009

Helgin fyrir jól

Hér er helgin að byrja. Feðginin fóru rétt í þessu dúðuð í strætó á leið í jólagjafaleiðangur í miðbæ Lundar. Spennandi. Hér er allt á kafi í snjó og bætir stanslaust í. Jólakortin eru komin í póst og allar jólagjafir innpakkaðar nema þær sem Jökull ætlar að fá að aðstoða við. Jólatréð er úti í garði og verður sett upp á mánudagskvöldið. Smákökusortirnar eru orðnar sjö, hangikjötið komið úr frysti og laufabrauðin á sínum stað. Fyrir utan það að heimilið lítur út eins og eftir kjarnorkusprengju er þetta bara allt að koma. - Nema kannski jólaskapið mitt en það bara hlýtur að fara að kikka inn. Er það ekki?

Framundan er julefrokost hjá vinum í Hróaskeldu. Það ætti að verða jólalegt :-)

sunnudagur, 6. desember 2009

Helgin? Bara fín.

Föstudagskvöld í hvíld og kósí. Íþróttaskóli, þrif, afró, jóga, matur, spjall, spil, góðir vinir, átta tíma samfelldur svefn, piparkökur, piparkökumálun, laufabrauðsútskurður, glögg, malt og appelsín og dásemdarkaffiborð og loks meiri smákökubakstur og almennur frágangur í gula húsinu. Er það ekki svona sem desemberhelgarnar eiga að líða? Mmmmm. Litli jólasveinninn minn er að minnsta kosti sáttur.

þriðjudagur, 1. desember 2009

Gúmmístígvélastelpan

Innkeyrslan mín var blaut í morgun þegar ég fór af stað og mér fannst himininn rigningarlegur. Ég er í hosum, gúmmístígvélum og gúmmíregnkápu. Jörðin er þurr og himininn er ekkert rigningarlegur. Ég er bara eins og bjáni. Skemmtilegt.

Mætt í skólann og búin að fá mér skólakaffi. Á dagskránni: "Rethinking aAgricultural Domestic Support Under the World Trade Organization"

mánudagur, 30. nóvember 2009

Uppskrift að kraga?

Mig vantar svo eitthvað heitt í hálsinn á Birnuskottinu. Á einhver uppskrift að svona stroffi/kraga fyrir svona kríli (svona eins og rúllukragi með smá stykki niður á brjóst og út á axlir. - Ég veit það er til svoleiðis í P.o.P og H&M en ég á soldið af garni og var að hugsa hvort ég kæmist ekki einhverja ókeypisleið að svona gersemi.

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Afrakstur helgarinnar

Jólaglögg frá Glorias Äppelgård, jólasinnep og jólaeplasulta. Jólabúningur á stelpuna, jólapiparkökur í boxi, jólaskinka í ísskáp og jólamandarínur í maga. Jólaöl í skúrnum, aðventuljós í glugga, aðventukerti í stofu, jólalög í spilaranum, jólaskraut niður af háalofti og jóladagatal á hurðina hjá Skottinu. Jólagjafir í húsi og jólakort á leið í pöntun. Jólaskap???... Horfið!

föstudagur, 27. nóvember 2009

Kaos

Þannig líður mér bara þessa dagana. Allt á fullu á öllum vígstöðvum og einhvern veginn bara allt í graut í kollinum á mér. Ég næ ekki að halda í við kennarana mína í lestri, mæti ekki í ræktina, dunda mér lítið með EB, held heimilinu ekki hreinu, fer varla í búð og matseldin er tilviljanakennd og oft ekki upp á marga fiska. Hvað er í gangi eiginlega? Ég er dauðþreytt á morgnana, kvöldin og um miðjan dag.

Shit hvað svona tímabil eru óþolandi og mikið vona ég að þetta gangi fljótt yfir. Þoli ekki svona. Ætla að reyna að stíga fyrstu skrefin í átt að betra líferni í dag. Þrif, matarinnkaup og todo-listi. Hvernig hljómar það? Verkefni helgarinnar er svo að gera "stundatöflu" fyrir næstu viku og sjá hvort ég get ekki amk reynt að ná upp lærdómi og taka inn einhverja hreyfingu. Margir litlir sigrar hljóta að gera svo einn stóran.

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Men nu är jag ju här...

Frábært. Var með plön um rækt og lestur fram að tíma sem á að byrja kl. 13:15. Var búin að koma mér fyrir við tölvuna með stílabók og kaffibolla, tilbúin að byrja að glósa grein, þegar ég rak augun í eftirfarandi tilkynningu á skjánum hjá mér "Don't forget two lectures concerning your master thesis on Wed. 25 Nov (10-12 at Crafoord II) and Mon. 7 Dec (13-14 at Crafoord II)." Klukkan var tíu mínútur í tíu. Ég hentist á fætur, greip allt í fangið (tölvuna, snúruna, stílabókina og veskið) hoppaði í strigaskó og úlpu og út. Hjólaði svo í hendingskasti hér niður í skóla þannig að dropaði af mér. Craaford II var tóm. Ég hafði verið að horfa á gamalt og úrelt skema. Fyrirlesturinn sem ég hentist á - er á föstudaginn.

Nú sit ég hér. Með tölvuna mína, kaffi og stílabók. Ósturtuð, ómáluð, sveitt, svöng, óræktuð og með ekkert íþróttadót. Dásamlegt alveg. Better make the most of it...

mánudagur, 23. nóvember 2009

Arion? Siríöslí?

Ég held ég þurfi að skipta um banka. Sé þetta fyrir mér.
"Hjá hvaða banka ertu?"
"Arion"
Siríöslí? Er ekki viss um að ég geti þetta.

miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Hún kemur sífellt á óvart sú litla

Fyrir kvöldmat vorum við Eyrún Birna að pússla og Mozart var á fóninum. Eyrún Birna leggur við hlustir og ég man nú ekki hvað það var sem byrjaði akkúrat þá en einhver melódía var það sem gæti verið vel til þess fallin að dansa við hana ballet. Þá segir hún: "Manstu mamma - Katrín var að dansa í fína kjólnum í sjónvarpinu." Það var í maí sem hún sá það!!

Síðar, á meðan ég undirbjó matinn, sat hún við eldhúsboðið og skoðaði leikfangabækling sem kom með póstinum í dag. Hún sá Fifi (Gullu) dúkkur og lifnaði heldur betur yfir henni þá. "Manstu mamma í sjónvarpinu í flugvélinni". Það var líka í maí!!!

Hún er með límheila. Ég bara vissi ekki að svona kríli væru með svona fínt minni.

Jólaskap

Facebook segir mér að allt sé að verða vitlaust í jólaundirbúningi á Íslandi. Er það rétt metið hjá mér?

þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Átsj

Nei grín. Ég fann ekkert fyrir þessu. En nú er ég bólusett. Spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Ég á að flytja verkefni á fimmtudag og dagurinn í dag fór ekki í að læra þ.a. ég vona að þessu fylgi ekki einhverjar drasl-aukaverkanir. Svínið nær mér amk ekki að fullu úr þessu.

Alvara

Allir gestir farnir í bili og alvaran tekin við fram að jólum. Mikið er nú gaman að fá góða gesti. Ef einhvern langar að nýta sér hraðatilboð Icelandair... t.d. í mars :-)... þá erum við hjónin víst höfðingjar heim að sækja sagði einhver. En nú er alvaran tekin við - ræktin í gær og bólusetning og lærdómur í dag. Stemmning.

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Gestir á leiðinni...

Þær eru bara í fluginu núna skvísurnar. Lenda á Kastrup kl. 11:00. Skvísuhelgi framundan svo! Hrikalega gaman. Nenni samt ekki að byrja að skúra... Spurning um að vera á síðustu stundu?

þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Uppgefin

Skilaði og kynnti ritgerð í dag. Á annasama og langa daga að baki. Er uppgefin. Trúi ekki að ég eigi að fara að hamast í nýjum fögum strax á morgun. Ekki séns.

mánudagur, 9. nóvember 2009

Laumublaðsíða

Ég er að skrifa ritgerð. Hún má mest vera fimmtán blaðsíður. Sextánda blaðsíðan er að læðast aftan að mér og það er ekkert sem ég get gert til að stoppa hana. Laumublaðsíða.

sunnudagur, 8. nóvember 2009

Æ hvað maður er lasinn

Ég sit við skrifborðið mitt að basla saman síðustu blaðsíðunni í ritgerð. Inn til mín læðist lítið Birnuskott með bók annarri og bangsa í hinni. Hún leggur höfuðið í kjöltuna mína og segir: "Góða nótt mamma." Er maður þá ekki dáldið lasinn?

föstudagur, 6. nóvember 2009

Jólin framundan?

Ég sendi lítinn blómálf i leikskólann í dag. Á næsta ári verður hún norn. Hún er bara allt of grúví til að vera blómálfur.

Ég er lítið farin að hugsa um jól. Kannski af því ég er að kafna í ritgerðarskrifum, fer lítið út úr húsi og er alls ekki í stuði til að jólavesenast eitthvað. Bæklingar um jólaskraut og gjafir eru farnir að fylla póstkassann á hverjum degi, og ég er viss um að jólaskrautið er komið í búðirnar einhvers staðar. Ég er bara ekki búin að fara að kíkja á það.

Ég fékk samt svolítinn hnút í magann rétt í þessu, þegar ég sá minnst á jólaheimferðir á stöðuuppfærslum á fésbókinni og stefnumót á Þorláksmessustund í Friðrikskapellu. - Það var mjög notalegt að eyða jólunum hér á heimilinu okkar í Svíþjóð í fyrra. Núna verður ábyggilega ekki síður notalegt þar sem við fáum að hafa stóra strákinn okkar hjá okkur. - Í fyrra komu samt mamma og pabbi og öll systkini mín og eyddu með okkur viku frá öðrum í jólum. Það gæti hafa gert allt saman miklu auðveldara...

... Ég er alveg til að vera heima með litlu fjölskyldunni um jólin. Ég vildi samt að ég gæti farið á Þorláksmessustund í Friðrikskapellu og spilað við systkini mín í Hæðarselinu á jóladag. Það væri aðeins betra.

miðvikudagur, 4. nóvember 2009

Að sofa í sínu rúmi

Já ég veit ég hef talað um þetta áður. Ég hef hins vegar eiginlega aldrei ákveðið að gera neitt í þessu. Eyrún Birna hefur verið tekin upp í til okkar nánast á hverri nóttu síðan við komum heim úr sumarfríinu og ekkert hefur verið gert til að breyta því. Við vorum svo ákveðin í að sofa að það var bara auðveldara að fá hana á milli okkar hálfa nóttina en ekki. Hvorugu okkar finnst það samt sérstaklega þægilegt. Nú er hún orðin bæði fyrirferðamikil og "hávaðasöm" vegna draumanna sinna og svefn okkar hjónanna er eftir margar nætur dálítið skertur. Þó minna skertur en hann væri ef ég væri stanslaust að fara með hana á milli rúma.

Alla vega - kunniði einhver góð ráð?

föstudagur, 23. október 2009

Kók - verkfæri dj......?

Við Davíð höfum síðan við kynntumst bæði verið mikið fyrir kókdrykkju. Stöku sinnum Pepsi Max. Mestmeginis Diet Coke eða Coke Light. Jafnvel Zero þegar þannig liggur á okkur. Við höfum alltaf átt kók - eða verið á leiðinni að fara að kaupa kók. Það hefur verið hamstrað á tilboðstímum og ákveðið öryggi fólgið í því að vita af einum svalandi sopa af stakri kaloríu í ísskápnum. Fíklar? Nei, ég held ekki, en klárlega of mikið af því góða.

Í ágúst hættum við að kaupa kók. Við bara hættum! Við drekkum ennþá kók þar sem við erum gestkomandi ef okkur langar í og það er í boði. Ef við förum "út að borða" (lesist á MacDonalds eða álíka) þá kaupum við líka kók ef okkur langar í það. Við kaupum það ekki á heimilið. Það sem meira er - við höfum varla saknað þess. Tvisvar! Tvisvar hef ég hugsað "nú væri gott að eiga kók". Mig hefur þó ekki langað nógu mikið í það til að fara út í búð og kaupa það en í annað skiptið var Davíð svo yndislegur að koma með eina dós handa mér úr búðinni síðar um daginn. Fanatíksk? Alls ekki eins og sést. En okkur hefur klárlega báðum liðið betur í kókleysi heimilisins.

Í gær fengum við gesti frá Jótlandi. Þau komu við í þýskum gnægtaverslunum áður en þau mættu á svæðið. Aðallega til að afla drykkjarfanga. Þau komu með tvo kassa af Coke Zero dósum. Ég er með eina kalda við hliðina á mér núna. Hún er búin að vera að kalla á mig síðan í hádeginu. Because I can!

miðvikudagur, 21. október 2009

Gulrótarsúpa með kókos, engifer og kóriander

Uppskriftahorn? Af hverju ekki?

Ég rakst á þessa súpu á netinu fyrir nokkru (nánar tiltekið hér) þegar mig langaði óstjórnlega í eitthvað sem væri samansett úr kókos og kóriander. Ég held ég hafi verið að hugsa um núðluréttinn sem lengi var í boði á Thorvaldsen þegar leitin fór fram. Ég hef gert hana nokkrum sinnum, bæði fyrir heimilisfólkið á virkum degi, enda bæði fljótleg og þægileg, og "spari" fyrir gestkomandi. Hún er frábær! Endilega prófið - og látið mig vita hvað ykkur finnst jafnvel...

Fyrir 4
Eldunartími: Minna en 30 mín.

5-6 stk. meðalstórar gulrætur
1/2 dl. engifer, rifinn
1 stk. laukur
3 msk. sítrónusafi
1/2 dl. hvítvín (má sleppa)
1/2 knippi ferskur kóríander
1 dós kókosmjólk
2 msk. gerlaus grænmetiskraftur eða grænmetissoð
vatn eða grænmetissoð
salt og nýmalaður svartur pipar
Aðferð: Gulrætur og laukur er saxað smátt. Grænmetið er léttsteikt- þar til það er orðið meyrt í stórum potti. Þá er vatninu og grænmetiskraftinum/soðinu bætt útí og látið sjóða í ca. 15. mín. Þá ætti grænmetið að vera orðið það meyrt í gegn að töfrasproti ætti að ráða við að fullmauka súpuna. Eftir að hún hefur verið maukuð er hún bragðbætt með hvítvíni (þarf ekki), sítrónusafa og salti og pipar. Rifnum engifernum og kókosmjólkinni er þá bætt saman við. Látið malla við vægan hita í 5 mín eftir að hafa verið bragðbætt. Ferskur rifinn kóríander er settur yfir rétt áður en súpan er borin fram.

Blogg

Við vorum að ræða þetta ég og Sirpa vinkona mín í gær. Við vorum eiginlega sammála um að feisbúkk sé bara alls ekki nóg. Ekki fyrir fólk... eins og okkur... Ókostir við feisbúkk eru að í flestum tilvikum er það bara tilviljun að fólk sér það sem þú segir og þrátt fyrir það eru allt of margir sem sjá það. Blogg er málið. Hér er hægt að segja mikið í einu um margt eða ekki neitt og það er algjörlega engin tilviljun að fólk sér það. Það eru margir hættir að blogga. Ekki síst eftir feisbúkkbyltinguna. Margir eru samt að byrja aftur núna. Jafnvel á nýjum forsendum. Mér hefur dottið í hug að byrja aftur að blogga. Ég veit ekki hvort þetta er sú byrjun - en þetta eru klárlega gælur við byrjun.

Í ljósi þess sem ég hef sagt hér að ofan - þá má velta fyrir sér hvort það eigi ekki bara að taka út birtingartenginguna á feisbúkk. Efni í vangaveltur.

Mæli annars með myndinni Julie og Julia... svona fyrst við erum að spjalla um blogg. Hún er frábær!

þriðjudagur, 20. október 2009

I skolanum

I skolanum ad massa ritgerd. Edlilega datt eg inn a DV og sa ad Bjarni Armannsson aetlar ekki ad vorkenna ser og finnst hann ekki vera i neinni adstodu til ad taka thatt i umraedu um hvers konar framkoma er sanngjorn gagnvart fjolskyldum utrasarvikinga og oreidumanna. Mig langar ad vita hvar hann laerdi ad svara fjolmidlum. Tharf ad senda fleiri i thennan skola.

Haldidi ad ef madur leitar nogu lengi a islenskum fjolmidlum og feisbukk tha endi thad ekki med thvi ad madur finni heimilidir um meginreglu Evropurettar um gagnkvaema virdingu?

miðvikudagur, 9. september 2009

Dagurinn í dag

Fullur af góðum fyrirheitum. Stepstyrka kl. 11:15 og svo sjáum við hvað setur. Ég er alla vega með verkefnalista - en veðrið er bara svo ansi ansi gott!!

fimmtudagur, 21. maí 2009

Prakkari

Á að vera að læra. Rétt fyrir utan dyrnar er Eyrún Birna prakkari skellihlægjandi að vera óþekk við pabba sinn. Frekar fyndið.

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Sofa - eða ekki sofa

Dóttir mín er farin að skríða æ oftar upp í rúm okkar foreldra sinna á nóttunni. Við höfum verið að ræða það hvernig best sé að stoppa þessa þróun. Eða hvort? Það fylgja þessu klárlega bæði kostir og gallar. Gallar: Henni finnst ótrúlega gott að kúra ofan á hausnum á mér, stela koddanum mínum og hrjóta hátt í eyrun mín. Kostir: Hún sefur alltaf lengur þegar hún kúrir upp í. Í morgun sváfum við til 8:40!

mánudagur, 20. apríl 2009

Cheerios...

... ég held mér finnist bann við sölu General Mills morgunkornins bara nógu góð ástæða til að ganga ekki í Evrópusambandið. (Eða er það ekki einhver evrópu-næringarreglugerð sem veldur því að það fæst hvergi hér?)

Ég elska "íslenskt" Cheerios - kvölds, morgna og um miðjan dag!

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Búhúúú...

Eftir annir, gestagang, hátíðarhöld, hreyfingarleysi, leikskólafrí og ofát síðustu daga líður mér eins og ég sé bókstaflega hlaupin í spik enn eitt skiptið og líf mitt hafi styst um heil 20 ár vegna almenns óheilbrigðis. Hér með lýkur þessari vitleysu. Morgundagurinn verður tekinn í nefið. Ekki nema tveir mánuðir þar til áætlað var að hafa náð markmiðum vetrarins. Enginn tími fyrir bakslag!! BRING IT ON!

sunnudagur, 12. apríl 2009

Páskadagur

Páskakanínan faldi 8 græn og fjólublá hænuegg í garðinum. Krakkarnir fundu þau öll. Eyrún Birna þrjú og Jökull Freyr restina. Páskamorgunverðurinn rann ljúflega niður við kertaljós og klassíska tónlist. Íslenska súkkulaðið var og er gott. Því komst Eyrún Birna að í fyrsta skipti í dag. Húsið er hreint. Gólfið er skúrað. Lambalærið bíður marínerað í ísskápnum. Eyrún Birna lúllar. Jökull hlustar á Enid Blyton og rótar í Legoinu sínu. Kaffibolli á kantinum og vöfflur hjá góðum vinum framundan... Páskadagur.

Gleðilega páska.

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Stressandi stjórnarskrárbreytingar

Hef ekki oft tekið undir orð Björns Bjarnasonar en geri það nú. Það er niðurlægjandi fyrir þingmenn að sitja á Alþingi og ræða stjórnarskrárbreytingar bara af því að Framsóknarflokkurinn vill það. Það er líka niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina að ræða stjórnlagabreytingar á þessum forsendum bara af því þeir ætla sér að sitja sem fastast. Það er náttúrulega klárlega niðurlægjandi fyrir Höskuld Þórhallsson, þann annars mjög mæta mann, að tefla fram sem rökum með stjórnlagabreytingum að það hafi verið skilyrði Framsóknarflokksins fyrir stuðningi við núsitjandi ríkisstjórn að ráðist yrði í þessar stjórnlagabreytingar.

Ég má ekki til þess hugsa að skapað verði fordæmi fyrir afgreiðslu stjórnlagabreytinga með þessum hætti - en svoleiðis verður það líklega. Fyrir Framsóknarflokkinn og hans 10% fylgi.

Nærmynd af Björgólfi Thor

Og þetta fannst þeim bara alveg frábær hugmynd?

mánudagur, 30. mars 2009

Farið yfir helgina

Ég er að taka púlsinn á stemmningunni á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hefði gjarnan viljað geta þátt. Ég heyrði setningarræðu Geirs í beinni. Hún var náttúrulega ekkert nema alveg frábær. Ég er að hlusta á Þorgerði Katrínu núna. Hennar ræða er líka frábær. Ég er líka búin að hlusta á glefsur úr málefnastarfinu. Það hefur greinilega verið mjög öflugt og mikil þátttaka í því. Allt í allt greinilega flottur fundur sem ber með sér bæði uppgjör við fortíðina og vilja til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Glatað að ræða Davíðs sé það eina sem hlýtur umfjöllun.

Og að lokum langar mig að benda á að það er ekki rétt að Þorgerður Katrín hafi ekki fengið mótframboð í embætti sitt. Að halda öðru fram er ekki bara vitleysa heldur óvirðing við aðra frambjóðendur í embætti hennar.

sunnudagur, 29. mars 2009

Hvað var Davíð Oddsson að gera þarna?

Próflesturinn er búinn og stelpan er uppgefin. Ég sem sagt. Alveg uppgefin. Ég ætla að taka vikuna í að skrúfa mig upp í síðustu önnina - á milli þess sem ég mæti í skólann. Alveg glatað að fá ekki nokkra daga í frí eftir próftímabil. Fúlt skipulag. Sérstaklega fyrir mömmur með helgarprógramm. Eftir níu tíma próf á föstudaginn tók þetta við: matarboð og rauðvín, bekkjarpartý, íþróttaskóli, húsþrif, barnaafmæli, hjólatúr, MacDonalds, ælupest, Nova Lund, barnaafmæli... Góð en annasöm helgi að paki.

Er annars að hugsa á ræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi frá því í gær. Hverjum datt í hug að gefa honum þetta tækifæri? Bendi á þessa færslu Erlu Óskar sem skipar 4. sæti á öðrum lista flokksins í Reykjavík. Ég tek undir með henni. Ekki talaði Davíð fyrir mína hönd heldur - og einskis sem ég hef heyrt í síðan í gær reyndar. Fyrir hvers hönd var hann að tala - og hvað í ósköpunum var hann að gera upp á sviði á landfundi?

mánudagur, 23. mars 2009

Skemmtilegt atvik

Ég skaust í ræktina í hádeginu. Þegar ég kom út var komin rigning. Ég setti undir mig hausinn, vafði að mér kápunni og hraðaði mér út í bíl í þungum þönkum yfir því hvað ég ætti að fá mér í hádegismat. Ég leit upp þegar ég heyrði bílhurð skellast. Eigandi skellsins var maður á mínum aldri. Svona sænskur töffari bara, í gallabuxum og svartri úlpu með loðkraga. Hann var einn. Hann hló upphátt, setti á sig húfu og breiddi út faðminn á móti rigningunni. Síðan baðaði hann vængjunum eins og fugl að hefja sig til flugs og valhoppaði í burtu. Sérstakt en skemmtilegt.

Umræðan

Umræðan um pólitíkina í dag er farin að fara mikið í taugarnar á mér. Ekki umræða pólitíkusanna sjálfra endilega heldur hinna, sem standa til hliðar og fylgjast með og naga og væla og kvarta...

Af hverju er engin endurnýjun? Af því ekki svo margir nýir bjóða sig fram? Af hverju eru þeir nýju sem bjóða sig fram ekki í fremstu víglínu? Af því þeir voru ekki kosnir. Hver kaus þá ekki? Þeir sem biðja hvað mest um endurnýjun líklegast.

Af hverju er Steingrímur J búinn að vera formaður VG í 10 ár? Hann er í flokki, frjálsum félagasamtökum, og býður sig fram á hverjum landsfundi án mótframboðs. Yrði hann kosinn ef hann fengi mótframboð? Það er félagsmanna í félagi með honum að ákveða það. Af hverju er hann án mótframboðs? Af því enginn býður sig fram á móti honum!

Af hverju sitja þingmenn fast í sætum sínum? Þeir hafa áhuga, hver svo sem hvatinn er, á að sinna þessu starfi. Þeir eru kosnir. Ekki þeir sem ekki bjóða sig fram. Þeir munu aldrei vera kosnir - nema þeir bjóði sig fram.

Ef eftirspurnin eftir endurnýjun og nýjum valmöguleikum er raunverulega svona mikil hlýtur framboðið að koma. Þegar kosið verður um framboðið er ekki hægt að væla yfir útkomunni. Fólk uppsker eins og það sáir. Ef ný framboð eru ekki kosin - er eftirspurnin bara ekki meiri. Eða ábyrgðartilfinning fólks með eftirspurnina ekki meiri. Hver svo sem ástæðan er - svona féllu bara atkvæðin! Meirihlutinn ræður!

Það er ekki hægt að þvinga stjórnmálaflokka til að breyta stefnu sinni til að þóknast þeim sem ekki leggja fram sína eigin stefnu.

Svona er bara lýðræðið. Við viljum lýðræði. Við viljum þetta. Það á enginn heimtingu á því að einhver annar bjóði fram krafta sína í þeirra þágu. Það á enginn heimtingu á endurnýjun, nýjum hugmyndum og nýjum starfskröftum. Þeir sem eru kosnir eiga rétt á sínum sætum - í hvaða embætti sem er. Eftir þeim var mest spurn! - Ef þú ert ekki sáttur - gerðu þá eitthvað! Ekki ráðast á þá sem sitja réttkjörnir í sínum sætum. Hvort sem það eru Jóhönnur, Steingrímir, Einarar eða Bjarnar. Atkvæðin féllu til þeirra.

föstudagur, 20. mars 2009

Áfram Katrín Þóra

Litla systir mín sem er orðin mikið stærri en ég er í dag í inntökuprófi í English National Ballet School í London. Mér finnst ég hefði átt að fara með henni. Ef ég hefði búið á Íslandi hefði ég jafnvel bara gert það. A.m.k. árið 2007.

Ég mun hugsa til hennar með alla fingur og tær krossaðar í dag. Hún á það svo skilið að ganga vel. Hún er frábær. Áfram Katrín!!

sunnudagur, 15. mars 2009

Fúl frammistaða

Hugsa óvenjulega mikið þessa dagana og er alveg til í að fara að blogga aftur með hækkandi sól.

Átti frábæra helgi með hressu fólki og góðu gríni - og súrum endi þegar ég sá niðurstöður prófkjöra Sjálfstæðisflokksins. Nokkrir góðir punktar inn á milli en í heildina ótrúlega léleg frammistaða hjá flokksmönnum. Magnað að sjá nánast engar breytingar í mannavali. Hvort eru Sjálfstæðismenn íhaldssamari en er hollt fyrir þá, hræddir við breytingar eða kannski bara hræddir við skoðanir sínar? Þ.e. að hafa sínar eigin. Eða... sátu þeir sem vildu breytingarnar kannski bara heima hjá sér, kusu ekki og héldu að það myndi breyta einhverju?

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Hádegistónleikar

Er á hádegistónleikum. Sit hér í eldhúsinu mínu með barnamónitorinn og hlusta á dóttur mína, sem liggur úti í vagni og syngur fyrir mig "Lille kat" á milli þess sem hún kallar "Maaaaaaaaammmaaaaaaa, Áááátta (Ásta), Eyj Bidda lúlla... NEI" Meira hvað maður hefur sterkar skoðanir ekki hærri í loftinu en þetta.

Lille kat er annars soldið uppáhald. Ef þið munið eftir laginu hennar Ídu úr Emil í Kattholti, Litli grís, þá kannist þið við þetta. Sama lag. Annað erindi.

Nú er hún reyndar byrjuð á "Bä bä vita lamm". Það er líka svolítið hátt á listanum. Ég þarf greinilega að fara að taka fram íslensku vísnabókina okkar. Eins gott að amma Lína er að koma í heimsókn.

Við keyrðum Davíð á lestarstöðina í hádeginu. Hann er að fara í vikuferð til Alingsås (sem er nett krummaskuð) að reyna að næla okkur í smá aukapening. Við söknum hans strax.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

"Ég er nú bara starfsmaður á plani"

Hversu skemmtileg eru nú áhrif Nætur- og Dagvaktarinnar á Íslenskt mál? Þetta finnst mér snilld.

En, síðan hvenær varð Össur starfsmaður á plani? Er hann ekki iðnaðarráðherra?

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Fjársjóðurinn minn

Ég á að vera að læra. Sit hérna við skrifborðið mitt og hlusta á feðginin fíflast. Fyrst yfir baðrútínunni og nú heyrist mér þau vera í símaleik, eða myndavélaleik. Litla daman kann aðeins örfá orð en þau spjalla og spjalla eins og enginn væri morgundagurinn og inn á milli heyrast í henni hlátrasköllin sem bara krakkar geta gefið frá sér. Pabbi er greinilega mjög fyndinn og hress. Dásamlegt.

Varð bara að deila þessu með ykkur - og nú aftur að bókunum.

Að skipta um skoðun

Fyrst þegar Fólkið fór að biðja um afsögn ríkisstjórnarinnar og kosningar á Íslandi var ég alfarið á móti því. Ekki af því mér fyndist svo frábært að hún sæti heldur var uppnámið þvílíkt að kosningar hefðu verið glapræði.

Núna... gerir ríkisstjórnin lítið af viti meir. Aðgerðir hennar núna eru ekki krísuviðbrögð heldur... tja... það fer alla vega að koma tími til að kjósa.

Það verður spennandi að fylgjast með landsfundi - væri gaman að gæta mætt. Endemis Svíþjóð (eða þið vitið - ekki alveg en samt stundum).

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Kalt í Lundi

Við erum að tala um 17°C inni hjá mér. Ég næ ekki að kynda húsið mikið meira (nema fara á hausinn). Mig vantar arin. Það er nokkuð ljóst. Þetta er fáránlegt. Ég sit hér í lopapeysu og -sokkum með flísteppi utan um mig og er að frjósa. Best að hella upp á te.

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Listin að klúðra viðtali

Ímyndaðu þér að þú sért stjórnandi fréttaskýringarþáttar á Íslandi. Ástandið er... eins og það er í dag, og þú ert með Bjarna Ármannsson í viðtali hjá þér að horfast, a.m.k. að hluta til, í augu við sinn hlut í falli íslenska fjármálakerfisins. Þú getur spurt hann um allt það sem brennur á allri þjóðinni. Hvað myndirðu leggja aðaláherslu á? Að fá hann til að segjast vera glataður fáviti? Hver yrði t.d. síðasta spurning þín? "Átt þú ekki bara að fá falleinkunn sem viðskiptamaður?"

Sigmar... þú hefðir getið tekið þetta - en þú gerðir það ekki.

Bjarni hins vegar... þú tókst þetta frábærlega. Það verður ekki frá þér tekið.

laugardagur, 3. janúar 2009

Játning

Ég átti frábær jól. Þau byrjuðu með yndislegum aðfangadegi og aðfangadagskvöldi með Eyrúnu Birnu og Davíð. Jólamaturinn heppnaðist frábærlega, mér til mikils léttis, og kvöldstundin með fjölskyldunni var hin ljúfasta. Ég mun aldrei aftur kvíða því að halda fámennt aðfangadagskvöld. A.m.k. ekki þegar það er svona góðmennt.

Á jóladag ákváðum við á hádegi að bjóða í smá jólakaffi. Allt í einu voru mættir til okkar 16 manns í kaffi, bollur, smákökur og jólaglögg og sökum fjölmennis var bara tilvalið að taka fram gítarinn og dansa í kringum jólatréð. Um kvöldið var okkur boðið í hangikjöt og félagsvist á Bivackgränden. Það var ekki leiðinlegt.

Annar í jólum kíktum við hjónin á útsölur - í sitthvoru lagi. Svo fórum við í jólaboð hjá Elvu Björk og Guðmundi (í sveitinni) sem buðu 17 manna saumó ásamt fjölskyldum í kaffi og Bingó. Dagurinn endaði svo í julefrokost að dönskum sið hjá Tomma og Möggu í Dragör (DK) með stórfjölskyldunni allri. Mamma og pabbi voru komin, ásamt Friðrik og Elísabetu og Katrínu Þóru. Það var svo gaman að sjá þau öll.

Þann 27. des fórum við nokkur á Hnotubrjótin, tókum svo pizzu og spil hjá Tomma í Dragör og svoleiðis liðu jólin. Dómkirkjuskoðun, hangikjöt og litlu jól í Lundi þann 28. des. Útsöluskoðun, rólóferð og sjóbað ásamt jólaglöggi og gamlárskvöldsskipulagningu þann 29. des. Jólatívolí með hersingunni allri þann 30. des ásamt dýrindis kvöldverði á Wagamama sem stendur sko alltaf fyrir sínu. Síðasta dag þessa endemis árs safnaðist svo 12 manna stórfjölskyldan saman í Dragör, undirbjó veislu kvöldsins og fagnaði svo með skaupi, flugeldum, Singstar og alvöru áramótastemmningu með ýmsu tilheyrandi eins og leigubílabið fram undir morgun o.fl. Nýarsdagur blandaðist þreytu og þynnku en við í Dragör hlóðum okkur þó samt inn í okkar fjallabíl með nesti og spil, leikföng og teiknimyndir og áttum nokkrar góðar klukkustundir með Íslandsgenginu í íbúðinni þeirra í Frederiksberg áður en leiðir skildu.

Þessir dagar voru alveg frábær. Við vorum mörg, sem hafði kannski þá einu slæmu hlið að ég fékk ekki að drekka í mig alla kosti hvers og eins þeirra sem ég sakna svo ógurlega mikið, en klárlega þá yfirgnæfandi góðu hlið sem sú tilfinning er að hafa alla sem standa manni næst í kringum sig á sama tíma. Þegar ég leit yfir stofuna mína á litlu jólunum og sá alla sitja þar prúðbúna við hangikjötsborðið... þá var gaman.

Játningin er bara sú að kveðjustundin var erfiðari en ég hélt. Árskiptin voru líka erfiðari en ég hélt. Ég táraðist yfir áramótaskaupinu – það er glæný lífsreynsla. Ég átti erfitt með að halda aftur af tárunum yfir innlenda fréttaannálnum á nýársdag. Ég táraðist margoft við tilhugsunina í gær um að fólkið mitt væri á heimleið og óvíst um hvenær þau kæmu aftur – eða hvenær ég kæmist heim. Mig langar heim og játa það hér með. Ég hugsa daglega til Íslands, vina minna og fjölskyldu þar en einnig ástandsins sem þar ríkir. Mér finnst erfitt að vera hér þegar ég vil svo miklu frekar vera þar þrátt fyrir að hér hafi ég alls ekki yfir neinu að kvarta – tja nema kannski peningaleysi. Ég er með heimþrá.