mánudagur, 30. nóvember 2009

Uppskrift að kraga?

Mig vantar svo eitthvað heitt í hálsinn á Birnuskottinu. Á einhver uppskrift að svona stroffi/kraga fyrir svona kríli (svona eins og rúllukragi með smá stykki niður á brjóst og út á axlir. - Ég veit það er til svoleiðis í P.o.P og H&M en ég á soldið af garni og var að hugsa hvort ég kæmist ekki einhverja ókeypisleið að svona gersemi.

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Afrakstur helgarinnar

Jólaglögg frá Glorias Äppelgård, jólasinnep og jólaeplasulta. Jólabúningur á stelpuna, jólapiparkökur í boxi, jólaskinka í ísskáp og jólamandarínur í maga. Jólaöl í skúrnum, aðventuljós í glugga, aðventukerti í stofu, jólalög í spilaranum, jólaskraut niður af háalofti og jóladagatal á hurðina hjá Skottinu. Jólagjafir í húsi og jólakort á leið í pöntun. Jólaskap???... Horfið!

föstudagur, 27. nóvember 2009

Kaos

Þannig líður mér bara þessa dagana. Allt á fullu á öllum vígstöðvum og einhvern veginn bara allt í graut í kollinum á mér. Ég næ ekki að halda í við kennarana mína í lestri, mæti ekki í ræktina, dunda mér lítið með EB, held heimilinu ekki hreinu, fer varla í búð og matseldin er tilviljanakennd og oft ekki upp á marga fiska. Hvað er í gangi eiginlega? Ég er dauðþreytt á morgnana, kvöldin og um miðjan dag.

Shit hvað svona tímabil eru óþolandi og mikið vona ég að þetta gangi fljótt yfir. Þoli ekki svona. Ætla að reyna að stíga fyrstu skrefin í átt að betra líferni í dag. Þrif, matarinnkaup og todo-listi. Hvernig hljómar það? Verkefni helgarinnar er svo að gera "stundatöflu" fyrir næstu viku og sjá hvort ég get ekki amk reynt að ná upp lærdómi og taka inn einhverja hreyfingu. Margir litlir sigrar hljóta að gera svo einn stóran.

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Men nu är jag ju här...

Frábært. Var með plön um rækt og lestur fram að tíma sem á að byrja kl. 13:15. Var búin að koma mér fyrir við tölvuna með stílabók og kaffibolla, tilbúin að byrja að glósa grein, þegar ég rak augun í eftirfarandi tilkynningu á skjánum hjá mér "Don't forget two lectures concerning your master thesis on Wed. 25 Nov (10-12 at Crafoord II) and Mon. 7 Dec (13-14 at Crafoord II)." Klukkan var tíu mínútur í tíu. Ég hentist á fætur, greip allt í fangið (tölvuna, snúruna, stílabókina og veskið) hoppaði í strigaskó og úlpu og út. Hjólaði svo í hendingskasti hér niður í skóla þannig að dropaði af mér. Craaford II var tóm. Ég hafði verið að horfa á gamalt og úrelt skema. Fyrirlesturinn sem ég hentist á - er á föstudaginn.

Nú sit ég hér. Með tölvuna mína, kaffi og stílabók. Ósturtuð, ómáluð, sveitt, svöng, óræktuð og með ekkert íþróttadót. Dásamlegt alveg. Better make the most of it...

mánudagur, 23. nóvember 2009

Arion? Siríöslí?

Ég held ég þurfi að skipta um banka. Sé þetta fyrir mér.
"Hjá hvaða banka ertu?"
"Arion"
Siríöslí? Er ekki viss um að ég geti þetta.

miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Hún kemur sífellt á óvart sú litla

Fyrir kvöldmat vorum við Eyrún Birna að pússla og Mozart var á fóninum. Eyrún Birna leggur við hlustir og ég man nú ekki hvað það var sem byrjaði akkúrat þá en einhver melódía var það sem gæti verið vel til þess fallin að dansa við hana ballet. Þá segir hún: "Manstu mamma - Katrín var að dansa í fína kjólnum í sjónvarpinu." Það var í maí sem hún sá það!!

Síðar, á meðan ég undirbjó matinn, sat hún við eldhúsboðið og skoðaði leikfangabækling sem kom með póstinum í dag. Hún sá Fifi (Gullu) dúkkur og lifnaði heldur betur yfir henni þá. "Manstu mamma í sjónvarpinu í flugvélinni". Það var líka í maí!!!

Hún er með límheila. Ég bara vissi ekki að svona kríli væru með svona fínt minni.

Jólaskap

Facebook segir mér að allt sé að verða vitlaust í jólaundirbúningi á Íslandi. Er það rétt metið hjá mér?

þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Átsj

Nei grín. Ég fann ekkert fyrir þessu. En nú er ég bólusett. Spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Ég á að flytja verkefni á fimmtudag og dagurinn í dag fór ekki í að læra þ.a. ég vona að þessu fylgi ekki einhverjar drasl-aukaverkanir. Svínið nær mér amk ekki að fullu úr þessu.

Alvara

Allir gestir farnir í bili og alvaran tekin við fram að jólum. Mikið er nú gaman að fá góða gesti. Ef einhvern langar að nýta sér hraðatilboð Icelandair... t.d. í mars :-)... þá erum við hjónin víst höfðingjar heim að sækja sagði einhver. En nú er alvaran tekin við - ræktin í gær og bólusetning og lærdómur í dag. Stemmning.

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Gestir á leiðinni...

Þær eru bara í fluginu núna skvísurnar. Lenda á Kastrup kl. 11:00. Skvísuhelgi framundan svo! Hrikalega gaman. Nenni samt ekki að byrja að skúra... Spurning um að vera á síðustu stundu?

þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Uppgefin

Skilaði og kynnti ritgerð í dag. Á annasama og langa daga að baki. Er uppgefin. Trúi ekki að ég eigi að fara að hamast í nýjum fögum strax á morgun. Ekki séns.

mánudagur, 9. nóvember 2009

Laumublaðsíða

Ég er að skrifa ritgerð. Hún má mest vera fimmtán blaðsíður. Sextánda blaðsíðan er að læðast aftan að mér og það er ekkert sem ég get gert til að stoppa hana. Laumublaðsíða.

sunnudagur, 8. nóvember 2009

Æ hvað maður er lasinn

Ég sit við skrifborðið mitt að basla saman síðustu blaðsíðunni í ritgerð. Inn til mín læðist lítið Birnuskott með bók annarri og bangsa í hinni. Hún leggur höfuðið í kjöltuna mína og segir: "Góða nótt mamma." Er maður þá ekki dáldið lasinn?

föstudagur, 6. nóvember 2009

Jólin framundan?

Ég sendi lítinn blómálf i leikskólann í dag. Á næsta ári verður hún norn. Hún er bara allt of grúví til að vera blómálfur.

Ég er lítið farin að hugsa um jól. Kannski af því ég er að kafna í ritgerðarskrifum, fer lítið út úr húsi og er alls ekki í stuði til að jólavesenast eitthvað. Bæklingar um jólaskraut og gjafir eru farnir að fylla póstkassann á hverjum degi, og ég er viss um að jólaskrautið er komið í búðirnar einhvers staðar. Ég er bara ekki búin að fara að kíkja á það.

Ég fékk samt svolítinn hnút í magann rétt í þessu, þegar ég sá minnst á jólaheimferðir á stöðuuppfærslum á fésbókinni og stefnumót á Þorláksmessustund í Friðrikskapellu. - Það var mjög notalegt að eyða jólunum hér á heimilinu okkar í Svíþjóð í fyrra. Núna verður ábyggilega ekki síður notalegt þar sem við fáum að hafa stóra strákinn okkar hjá okkur. - Í fyrra komu samt mamma og pabbi og öll systkini mín og eyddu með okkur viku frá öðrum í jólum. Það gæti hafa gert allt saman miklu auðveldara...

... Ég er alveg til að vera heima með litlu fjölskyldunni um jólin. Ég vildi samt að ég gæti farið á Þorláksmessustund í Friðrikskapellu og spilað við systkini mín í Hæðarselinu á jóladag. Það væri aðeins betra.

miðvikudagur, 4. nóvember 2009

Að sofa í sínu rúmi

Já ég veit ég hef talað um þetta áður. Ég hef hins vegar eiginlega aldrei ákveðið að gera neitt í þessu. Eyrún Birna hefur verið tekin upp í til okkar nánast á hverri nóttu síðan við komum heim úr sumarfríinu og ekkert hefur verið gert til að breyta því. Við vorum svo ákveðin í að sofa að það var bara auðveldara að fá hana á milli okkar hálfa nóttina en ekki. Hvorugu okkar finnst það samt sérstaklega þægilegt. Nú er hún orðin bæði fyrirferðamikil og "hávaðasöm" vegna draumanna sinna og svefn okkar hjónanna er eftir margar nætur dálítið skertur. Þó minna skertur en hann væri ef ég væri stanslaust að fara með hana á milli rúma.

Alla vega - kunniði einhver góð ráð?