miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Eins og vindurinn...

... og eins og enginn væri morgundagurinn. Þannig bloggar karl faðir minn þessa dagana.

Átti ágætissamtal við tengdaforeldra mína í gærkvöld sem komu með ferskar kreppufréttir til Lundar. Þetta er nú meiri endemis vitleysan allt saman.

Við vorum samt sammála um að best væri ef hægt væri að fóðra lýðinn fljótlega með einhverju bitastæðu til að vinnufriður kæmist á.

mánudagur, 24. nóvember 2008

Rugl og vitleysa

Var að lesa enn eina fínu færsluna hér.

Ég var að ljúka við grunnkúrs í hagfræði fyrir lögfræðinga og þar var kennaranum mínum títtrætt um hvers vegna bændur væru svona valdamiklir í Evrópu... og víðar. Hvers vegna fá bændur alltaf allt sem þeir vilja á kostnað annarra? Jú - þeir eru tiltölulega lítill hópur, afskaplega vel skipulagður, með vel skilgreind markmið en jafnframt þverpólitískur. Þar sem þeir eru fáir en með góða þrýstipunkta fá þeir mikið í sinn hlut á kostnað okkar hinna, sem erum mörg og finnum lítið fyrir því hlutfallslega og því tekur því ekki fyrir okkur að skipuleggja okkur, stilla saman strengi og mótmæla mótmælum bænda. Borgar sig bara ekki.

Þetta er svona sirka það sem mun gerast ef þetta heldur áfram. Svipað eins og lýst er í þessari bloggfærslu hér að ofan. Smátt og smátt mun koma í ljós að við erum ekki samstillt og erum illa skipulögð og með illa skilgreind markmið. Við erum ekki sammála um hverju við viljum að mótmælin skili og hvaða aðferðum á að beita. Það mun verða til þess að smám saman heltist úr lestinni fólk sem sér það einfaldlega ekki borga sig fyrir sig að eyða kröftum í þátttöku í sameiginlegum mótmælum. Eftir verða margir hópar fárra og enginn þeirra mun hafa afl til að fá sínu fram.

Bara glatað að fólk geti ekki haldið skynseminni, gert raunhæfar kröfur og fyrst og fremst skilið skrílslætin eftir heima. Hvað er t.d. málið með að sækja ríkisstjórnina og bera hana út? Hvaða endemis rugl er þetta? Og hafa bara stjórnleysi? Eða setja við stjórnvölinn fólk sem notar aðferðir eins og þessar til að vinna með sínum málstað? Fólk sem sér ekkert að því að taka ákvarðanir án tillits til laga og þvinga þannig fram vilja sínum. Fólk... sem er litlu eða engu betra en þeir sem það þykir sig vera að berjast baráttu hinna réttlátu gegn.

Endemis rugl og vitleysa sem þetta er komið út í. Vonandi næst að vinda ofan af þessu áður en allt fer til fj...

Ferskt og ómyglað

Pabbi sagði í gær að bloggfærslan hér á undan væri farin að mygla. Þá held ég það sé kominn tími á nýtt.

Það er snjór í Lundi. Snjór og frost og bara nokkuð jólalegt. Á laugardaginn þrifum við húsið með jólalög í botni, fórum svo út að leika í snjónum, hituðum svo kakó og ég bakaði kryddbrauð. Er þetta ekki eins og þetta bara á að vera í lok nóvember? Nú vantar mig bara að komast í IKEA og kaupa kanilkerti.

Skólinn er kominn aftur á fullt hjá mér og feikinóg að gera. Útkoman úr fyrstu prófunum í náminu var mjög ánægjuleg og hvetjandi til frekari duglegheita svo ég ætla ekkert að vera að slaka á neitt þó það sé að koma desember. Það er reyndar margt framundan hjá okkur sem mun eitthvað trufla lærdóm en... það verður bara að nýta tímann þá ennþá betur þegar tækifæri gefst.

Jæja... hafði svo sem ekkert mikið að segja. Fannst bara leiðinlegt að hafa myglandi færslu á toppnum! Tengdó koma í heimsókn á morgun þ.a. ætli það sé ekki best að læra á meðan ég get.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Lítil dolla

Litla skottið mitt er að kafna úr frekju inni herbergi og þvertekur fyrir að fara að sofa. Er að henda bæði bangsanum sínum og sokkunum út úr rúminu á milli þess sem hún kúgast af öskrum.

Spurning um að fara að rifja upp Super Nanny trixin. Muniði einhver?

mánudagur, 10. nóvember 2008

Snillingur farinn

Jámm... þeir deyja víst líka. Miriam Makeba átti ekki marga ef nokkurn sinn líka.

laugardagur, 8. nóvember 2008

Operation getting my life back

er byrjuð. Þvottavélin er komin af stað og uppþvottavélin líka. Uppsafnaðar blaðahrúgur eru komnar í endurvinnslukassann, barnið er baðað og ég er á leiðinni að búa um rúmin.

Mikið er ég glöð að þetta kláraðist á endanum. Helgin mun fara í að knúsa Eyrúnu Birnu eins mikið og ég mögulega get á meðan ég reyni að koma heimilinu smám saman í viðráðanlegt horf. Ég bind svo miklar vonir við vikuna. Planið er að endurnýja kynnin við vini og kunningja, taka til í nokkrum skúffum og skápum, klára nokkrar jólagjafir og... jú kannski mæta í tíma og kaupa bækurnar. Alls ekki lesa samt!

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Varúð!

Þetta er það sem ég óttaðist að yrði það versta sem kemur út úr þessari kreppu. Vonandi hljóta hugmyndir þessara einstaklinga ekki hljómgrunn. Það myndi endanlega gera útaf við samfélagið okkar á Íslandi og algerlega koma í veg fyrir að okkur takist, með einstaklingsframtaki, að byggja aftur upp blómlegt efnahagslíf þar sem nýsköpun og hugmyndaauðgi borgar sig.

Aðstæðurnar í dag eru kjöraðstæður fyrir sósíalisma til að skjóta nýjum rótum í samfélaginu. Rót vandans sem við stöndum frammi fyrir er ekki frelsið heldur lélegt regluverk, eftirlit og siðleysi og hugleysi. Til að takast á við erfiðleikana sem við stöndum fyrir þarf að ráðast að rót vandans - ekki búa til nýtt pólitískt umhverfi þar sem sami vandi mun skapa ný vandamál. Við skulum ekki leyfa þeim sem komu okkur í þessa stöðu eyðileggja framtíð okkar líka.

Tommi er sammála mér. Vonandi eru það sem flestir.

Mikið er ég glöð...

... með nýja Bandaríkjaforsetann. Mikið glöð. Hlakka til að sjá breytingarnar sem ég trúi að muni fylgja í kjölfarið á þessu.

Loksins eitthvað jákvætt að gerast í heimsmálunum segi ég nú bara.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Réttmæt reiði

Hann pabbi minn skiptir ekki oft skapi. Í uppeldi mínu man ég eftir skiptum þar sem hann varð reiður við okkur systkinin og það var undantekningarlaust þegar við áttum það skilið. Þegar við höfðum sagt ósatt, verið löt og sérhlífin eða á annan hátt tillitslaus í garð annarra. Í raun er það eina sem ég hef séð fá reiðina til að brjótast út í honum er óheiðarleiki, ósanngirni og eiginhagsmunapot. Hvernig haldiði að honum sé innanbrjósts núna?

Skrítið að sjá svona mikla réttmæta reiði, örvæntngu, vonbrigði... allar þessar neikvæðu tilfinningar á sama stað og á sama tíma. Með hverju endar þetta?

mánudagur, 3. nóvember 2008

Jólaseríur

Mér finnst að Íslendingar ættu bara að fara að skella upp jólaseríunum. Það myndi ábyggilega fá alveg nokkra til að brosa út í annað.

Ég er ekki frá því að ég myndi bara fara að drífa í því sjálf ef rafmagnið hérna væri ekki svona rosalega dýrt.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Erfitt...

... horfði á eftir músinni minni og pabba hennar fara gangandi út götuna á leið í kaffiboð. Langaði hræðilega mikið með. Í gamla daga þegar ég las undir próf fór veröld mín fram þar sem próflesturinn fór fram og ég saknaði einskis. Það er af sem áður var.

Mikið verð ég fegin þegar þessi próf eru búin. Er komin með langan lista yfir það sem ég ætla þá að gera. Efst er að knúsa Eyrúnu Birnu - og Davíð þegar hann kemur heim frá Íslandi.

Mínar áhyggjur eru þessar

Ég á nokkra þætti af Lipstick Jungle, Heroes og Gossip Girl sem ég á eftir að horfa á. Mig langar að horfa á einhvern einn þátt í kvöld eftir lesturinn. Hvaða þátt á ég að horfa á?

Alvarlegra er það nú ekki í bili. Er ég ekki heppin?

laugardagur, 1. nóvember 2008

Fyndið... eða hvað?

Soldið fyndið svona. Er að lesa um hvað það séu nú fólgnir miklir kostir í að hafa lítið myntsvæði þar sem hagsmunir þeirra sem á svæðinu búa eru þeir sömu og samtvinnaðir. Þá sé svo þægilegt að berjast gegn "sjokki" í efnahagslífinu með svæðisbundinni myntstefnu. Hækka gengið... lækka vexti og hvaðeina. Jahá!

Lítil sól

 Var bara að velta fyrir mér hvort það væri ekki stemmningi fyrir svona lítilli og brosandi sól í skammdeginu. Ég er alla vega kátari eftir að hafa skoðað þessa mynd.
Posted by Picasa

Nýtt gott blogg

Pabbi heldur áfram að blogga. Hvet ykkur til lestrar. Spurning um að láta kallinn fá link?