föstudagur, 31. október 2008

Allt úr skorðum

Mér finnst bara frekar mikið flókið að vera í próflestri og þurfa að sinna annarra manna rössum. Nú eru þrír dagar í próf. Ég var búin að ákveða maraþonlestur í dag til að geta sótt EB kl. 16 og ekki farið strax aftur að læra heldur farið með henni í smá búningapartý og leyft henni að njóta móður sinnar í smá stund. Ef ég sæki hana 16 í dag verður hún ALEIN á leikskólanum frá 15-16. Það er haustfrí og Halloween og það eru greinilega allir foreldrar betri en ég og sækja börnin sín snemma. Nú verður maraþonlestur í öðru veldi... mér finnst hræðileg tilhugsun að hún sé bara alein að dröslast á leikskólanum með Andreas, sem er ekki einu sinni fóstri á hennar deild (ábyggilega fínn samt).

Ok... massa þá bara helgina í staðinn. En nei! Þá kemur allt í einu upp óvænt vakt hjá Davíð. Besti kosturinn er að flytja hana frá laugardegi frá 12-21 yfir á sunnudag frá 8-16. Sem sagt - besti kosturinn er alls ekki góður. Ég veit ekki hvernig það á eftir að fara með mig þar sem þetta er DAGURINN FYRIR PRÓF og þá er ég venjulega, og á rétt á að vera, geðveik. Ef ég myndi blóta... þá myndi ég blóta núna. Hrumpf.

Já... og ég gleymdi að segja að ég hef enn ekki sofið heila nótt - núna í 10 daga - og ég gerði mér cappuccino í dag... bara til að minna mig á að kaffibaunirnar mínar eru nánast ódrekkandi. Góður dagur??

fimmtudagur, 30. október 2008

Pabbi bloggar

Nú er pabbi farinn að blogga. Vona að hann tjái sig oft og mikið. Það er ekki vanþörf á að fjölga moggabloggurum sem skrifa af viti.

Pabbablogg

miðvikudagur, 29. október 2008

Ein í húsinu

Búin að vera að bíða eftir þessu. Nú er ég loksins ein og get lært í friði - þá fer einbeitingin. Ætli það sé ekki kominn tími á að sofa heila nótt bara. Líður soldið eins og í miðri brjóstagjöfinni.

Mikið er ég þakklát fyrir að eiga barn sem að meginreglu til sefur á nóttunni. Þetta vökustúss er bara alls ekki fyrir mig.

þriðjudagur, 28. október 2008

Hin lausnin

Stjórnarandstaðan dundar sé nú við að gagnrýna harðlega ákvörðun Seðlabankans um hækkun stýrivaxta. Stýrivaxtahækkunin er til að mæta kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem settar eru fram í tengslum við samningaviðræður um aðstoð við að rétta af stöðuna á Íslandi. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leita til sjóðsins hefur líka verið gagnrýnd af sama fólki - amk hefur verið gefið í skyn af formönnum stjórnarandstöðuflokkana að skilyrðin sem gengið hafi verið að hafi verið óviðunandi.

Mig myndi svo gjarnan langa til að sjá þeirra lausn á málinu. Hvernig hefðu þeir farið að við að semja um vægari skilyrði? Hvert hefðu þeir þá leitað um lán ef ekki til IMF? Og bara yfirleitt - hvað annað ætluðu þeir að gera? Hef lítið heyrt um það.

sunnudagur, 26. október 2008

Skjaldbakan mín

Borghildur vinkona okkar lánaði Eyrúnu Birnu þennan fína búning sem við ákváðum að prófa hérna eitt kvöldið.



Litla skottið okkar er nú ekki alveg í þessari stemmningu í dag... en vonandi batnar henni fljótt.

föstudagur, 24. október 2008

Á svona dögum...

... þegar allt er öfugt. Er gott að mega fá sér nokkrar möndlur með kaffibollanum. Takk Níní!

Veikindi

Jæja. Hér gengur lífið bara sinn vanagang. Músin mín er orðin lasin eina ferðina enn og setur þar með á hvolf öll plön helgarinnar um lærdóm, strípur, lærdóm, matarboð, lærdóm og fleira.

Eins og áður vonar maður að þetta gangi fljótt yfir.

Það væri auðveldara að vorkenna henni ef hún væri raunverulega slöpp en hún er bara með hita og annars FÁRÁNLEGA hress - bara ekki í leikskólanum.

Ætli maður njóti þess ekki samt að vera með henni í kósíheitum í dag. :-)

miðvikudagur, 22. október 2008

Prófstemmning og hreyfing

Já það er komin prófstemmning í stelpuna. Hvort bloggum fjölgar eða fækkar í prófstressi í Svíþjóð á eftir að koma í ljós en... það er alla vega nóg að gera. Þar sem allur minni tími fer í lestur þessa dagana er ég þvílíkt fegin að þetta er a.m.k. ágætlega skemmtilegt. Það var nú ekki alltaf þannig í þessa gömlu góðu.

Ég get samt alveg hugsað um fleira... og í dag var ég á vappi og þá allt í einu bættust við 3 jólagjafir. Ég er þá búin með 7. Hresst!

Annars langaði mig bara að hvetja ykkur samfélaga í kreppu til að stunda hreyfingu í vetrinum. Helst úti... en annars inni. Það er ekkert betra fyrir gleðiheilsuna en það!

mánudagur, 20. október 2008

Ohhh

Ae thad er komid profstress i mig. Tha er svo erfitt ad laera.

Veit annars einhver hvort thad er haegt ad kaupa mida til Islands med vildarpunktum ad hluta og borga svo thad sem uppa vantar?

sunnudagur, 12. október 2008

Forsjál

Á þessum síðustu og verstu borgar sig að sýna fyrirhyggju og forsjálni. Í dag er 12. október og ég er búin að kaupa fjórar jólagjafir og taka ákvörðun um aðrar fjórar. Hvað finnst ykkur um það?

föstudagur, 10. október 2008

Jákvætt III

Við hjónin ákváðum í gær að nú verður tekin pása frá yfirlegu yfir fréttaveitum og lífið heldur áfram. Ég heyrði kunningjakonu mína í dag sem tapaði öllu sparifé sínu á einni nóttu segja hina gömlu góðu línu "við grátum ekki dauða hluti." Þannig er það nú bara. Þetta er súrt. Það er ömurlegt að fylgjast með þessum hamförum og vita ekki hvernig framtíðin verður, en það er líka fleira sem skiptir miklu meira máli í lífinu. Nú er best að fara að snúa sér að því. Í kvöld ætla ég að eiga kósíkvöld með fjölskyldunni minni og á morgun ætla ég að hlægja frá mér allt vit í hópi góðra vina. Ekkert annað í stöðunni.

þriðjudagur, 7. október 2008

Jákvætt II

Ég verð segja, án tillits til undanfarinna daga, vikna og mánuða, að ríkisstjórnin er að koma sterk inn í gær og í dag. Greinilega búin að bretta upp ermarnar. Upplýsingaflæðið er gott og aðgerðirnar djarfar. Vonum að þetta skili einhverri vernd fyrir íslenskan almenning.

Jákvætt

Þið getið ekki ímyndað mér hvað ég varð glöð þegar "stóra" litla stelpan mín vinkaði mér skælbrosandi bless á leikskólanum í morgun og hljóp svo skríkjandi inn til félaga sinna sem tóku skellihlægjandi á móti henni.

Ég ætla ekki að blogga um kreppuna. Að minnsa kosti ekki í þetta sinn. Of mikið að segja. Of lítið vitað. Of mikið af fólki að tjá sig um það sama. Það eina sem ég vil segja er að það var erfitt að vera í útlöndum í gær.

föstudagur, 3. október 2008

fimmtudagur, 2. október 2008

Pirripirr

Ég þoli ekki blogg sem... eru show off. Ég þoli ekki þegar fólk lítur á það sem skyldu sína að kommenta á hluti sem eru í hámæli í samfélaginu þó það hafi ekki hundsvit eða hugmynd um það sem það er að segja. Það apar upp eftir öðrum neikvæða gagnrýni sem því líst vel á og bætir svo við tilheyrandi vælfrösum og leiðindum. Oftar en ekki skilur það ekki alveg hvað það er að tala um þannig að gagnrýnin verður nokkurs konar samhengislaust væl án nokkurrar röksemdafærslu. Ég þoli alls ekki þegar einmitt þannig fólk kemur með kjánalegar skyndilausnir sem það veit að myndu aldrei virka í raunveruleikanum og gætu allt eins verið fengnar úr kókópöffspakka en... af því það þarf ekki að taka ábyrgð á neinu getur það spilað sig stórt og skotið fram hinni og þessari vitleysunni.

Það bara pirrar mig óendanlega mikið hvað fólk, sem virðist ekki gera annað en sitja á rassgatinu og leggja ekkert til málana á vettvangi þar sem það raunverulega getur haft áhrif og myndi aldrei gefa snefil af tíma sínum í að reyna að koma uppbyggilegum hugmyndum að ef það kostar einhverja vinnu, getur vælt.

Þau þurfa samt ekkert að hætta að blogga. Ég ætla hins vegar að hætta að lesa bloggin þeirra.

Gefins péningur?

Síðan ég flutti til Svíþjóðar finnst mér ég alltaf vera að bíða eftir peningum í pósti. Svona eru velferðarríki norðursins.